Heimagert Kitty Afmæli

Eru ekki öll afmæli heimagerð? Jú en það sem ég á við er að við keyptum ekki þetta hefðbundna, glös, diska og dúka til að gera þemað heldur var prentarinn mundaður og einnig smá teiknað í sinni enföldustu mynd. Ég hef ógurlega gaman af því að skipuleggja afmæli – gæti vel hugsað mér að hafa það að atvinnu en launin á hverja vinnustund væru bara ferlega léleg í krónum talið en gífurleg í gleði.

Ég er sérlega lunkin við að missa mig í smáatriðum og svo var einnig núna, svo mikið að ég náði auðvitað ekki að gera allt sem ég ætlaði mér og var enn að þegar gestirnir mættu á svæðið. Það er nefnilega svolítið erfitt að vera með háleit markmið og frestunaráráttu… eða ákvörðunarfælni kannski frekar. Nonni, móðir mín og tengdaforeldrar voru sveittir í veitingagerðinni á meðan fósturfarðir minn sá um litla dýrið og Kría brasaði með okkur eða lét fröken Tv skemmta sér.

Hér eru nokkur af uppáhalds atriðinum mínum frá deginum og veislunni hennar stóru minnar (svona fyrir utan uppáhalds fólkið okkar en ég hlýfi þeim nú við myndbirtingu á alnetinu).

Borðan sem hékk yfir veisluborðinu dútlaði ég við að gera fyrir um 2 mánuðum síðan – ég teiknaði sumsé upp eitt stykki og dró svo gróflega í gegn á hinar veifurnar.

Engar tvær eru eins, tími varla að henda þeim eða láta daga uppi ofaní skúffu, einhver að halda Hello Kitty afmæli á næstunni sem vill eiga?

Fyrir þá sem eru minna í að föndra en þó smá þá er hægt að finna ókeypis prentanlegt efni á alnetinu, klippa og festa upp. Ég límdi þessar á gjafaborða með límbyssu.

Kertið tók ca 5 mín að græja – prenta út mynd á fallegan pappír (má nota hvaða pappír sem er) og mjaka þar tilgerðu lími sem fæst í föndurbúðum á bæði kertið og myndina og voila. Þennan yndislega borða sem prýðir kertastjakann fékk ég Rúmfatalagernum

Túlípanar gera bara allt svo dásamlegt

Litlu prentanlegu slaufurnar finnst mér æði og klessti þeim útum allt, til að mynda á rammann með afmælis viðtalinu, á rör, á veisluborðið, kaffivélina… bara allstaðar. Þær gera einfaldlega allt aðeins sætara.

Meira að segja mig

Hér má sjá slaufurnar á fallegu pappírs rörunum í endurunni glerkrukku sem ég límdi á enn eitt ókeypis “printable” og skellti á límborða blúndu. Ætlaði mér að gera ögn meira af svona dúlleríi en rann út á tíma.

Þessir bréfpokar finnst mér ÆÐI – 40 stk í pakka á 350 krónur eða þar um bil í Mega Store í Smáralind. Svo var bara að klessa á enn meira af prent dótinu mínu, já ég klippti út talsvert magn af Hello Kitty myndum. Ég skellti svo poppi í þá, neibb það var ekki bleikt, fyrir litlu gestina (og systur mína) 

Setti það líka á boost flöskurnar, bæði á glerið og tappana < 3

Mér finnst ekkert endilega nauðsynlegt að hafa glösin og diskana með þemanu en litirnir í þemanu fengu að vera á pappa glösunum. Á diskana ætlaði ég svo að gera kisu eyru – en það bíður bara betri tíma.

Tveimur dögum fyrir afmæli máluðum við afmælisbarnið og skelltum í myndatöku fyrir Myllu köku – því fyrirséð var að við myndum ekki láta verða að því að baka köku sjálf…. einsgott þar sem ég var nógu sein fyrir með allt sem ég ætlaði mér og sumu þurfti bara að slaufa (SLAUFA hahaha)

Bleikar pastaslaufur prýddu brauðréttinn eins og sjá má hér að ofan, smá af gel matarlit útí vatnið, látið sjóða og pasta skellt í. Ef pastað er veitt uppúr má skella meiri lit í og sjóða annan skammt til að fá annan lit. Héðan í frá verður JELLO við öll tækifæri – ég elska það jafn mikið og Nonni hatar það sem hentar mér ágætlega, meira fyrir mig. Í svona litlum formum tekur það ekki nema um klukkustund að verða að hlupi.

Ég elska bleiku pönnukökurnar – örfáir dropar af gel matarlit (sem fæst mörgum verslunum (ég keypti minn í Allt í Köku í Kópavogi) og þær verða svona dásamlega bleikar.

Þessi var sko ekki að hata þær!

Frumraun okkar Kríu í súkkulaðihúðun – keypti hvítan súkkulaðihjúp og sérstaka súkkulaði matarliti til að fá þá liti sem mig langaði í. Óóóó svo gaman – verður sko gert meira af þessu og þá með svoldið meiri fyrirvara – ætli það sé hægt að gera svona deginum áður..?

Jarðarber eru eitt af því sem gerir lífið einfaldlega fallegra – nokkur súkkulaðihjúpuð en verða fleiri næst.

Af öllu þessu er þessi þó í laaaaang mestu uppáhaldi, stjarnan mín!

Þegar maður er svona dásamlega seinn fyrir þá næst ekki að taka myndir eins mikið og ég myndi vilja en ég hlýt að læra að vera ögn tímanlega í þessu með árunum… eða hvað? Kannski bara halda barnaafmæli um 8 á kvöldin… nei ég segi svona.. bara pæling – myndi líklega samt ná að vera enn að þegar gestirnir kæmu.

Þó ég hafi nú ekki verið jákvæð á þetta Kitty þema í byrjun þá er ég sérdeilis ánægð með það val dótturinnar núna. Næsta þema fæ ég að velja… því 1árs barn er ekki fært um að segja meiningar sínar – múhahaha. Þemað er nú þegar ákveðið, já ég veit það er bara Mars og afmælið í Júní en svona rúlla ég bara.

Nú slaufa ég þessum póst – vonandi höfðuð þið gaman af

Kveðja,
Konan á  2. degi afmælisveislu þynnku

Ps Ef þú ert ný/nýr hér inni og langar að fylgjast með nýjum póstum þá er um að gera að heimsækja Facebook síðu Fífur og Fiður og skella “Like” á síðuna.

Fífur og Fiður á Facebook

5 Comments

 1. Frábært að lesa bloggið þitt! Stórgaman að fylgjast með og svo segirðu svo skemmtilega frá. Knús héðan frá Helsingborg.

  • Takk fyrir að líta við og skilja eftir skilaboð – gaman að heyra að þú hafir gaman af paufinu í mér :) Kram frá ÍSlandi :*

 2. Ragna
  March 9

  Enn gaman að fá að sjá myndir frá herlegheitunum, verst þó að hafa misst af því. Allt svo dásamlega fallegt sem þú gerir Þórlaug og skemmtilegt þetta með afmælisviðtal, væri gaman að sjá spurningarnar :)

  • Takk elsku Ragna. Æjj ykkar var saknað – svo var líka alltof mikið af köku þar sem ég gerði ráð fyrir ykkur ;)Í póstinum á laugardaginn, sjá hér http://www.fifurogfidur.com/fjogur/ deildi í spurningarblaðinu sem hægt er að nota sem grunn og breyta eftir behag og aldri barna auðvitað. Skemmtilegt samt að hafa einhverjar spurningar fastar þannig að maður sjái muninn á svörunum. Getur svo komið í heimsókn og lesið Kríu viðtal :)

 3. […] Ég var að renna yfir myndir frá undanförnu ári, þar á meðal af afmæli stóru stelpunnar, bleika afmælisins þið […]

Comments are closed.